Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Fæðingar- og foreldraorlof

Mál nr. 193/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 193/2020

Föstudaginn 29. maí 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. apríl 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. febrúar 2020, um að synja umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 13. janúar 2020, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna væntanlegrar barnsfæðingar. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. febrúar 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof um að foreldri þurfi að hafa verið sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns væri ekki uppfyllt.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. apríl 2020. Með bréfi, dags. 21. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 29. apríl 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. maí 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið synjað á grundvelli þess að hún hafi ekki verið í vinnu á innlendum vinnumarkaði í samfellt sex mánuði fyrir fæðingu barns hennar. Kærandi tekur fram að hún hafi starfað fyrir B í C á árinu 2019. Samningi hennar þar hafi lokið X 2019 og í X og X 2020 hafi hún verið í yfir 25% starfshlutfalli hjá D. Höfuðstöðvar B séu í E og kærandi hafi fengið laun sín greidd þaðan. Ekki hafi verið hægt að útvega S-041 formið sem gerð sé krafa um þar sem um sé að ræða alþjóðlega stofnun sem lúti ekki rétti einstakra landa hvað þetta varði. Í ljósi þessa hafi stofnunin hafnað því að fylla formið út en hafi útvegað annars konar staðfestingu á því að kærandi hafi verið tryggð tímabilið sem hún hafi unnið hjá þeim, sbr. meðfylgjandi staðfestingu.

Kærandi óski eftir því að litið verði til þess að B sé alþjóðastofnun og að gerð verði undantekning á kröfunni um skil á áðurnefndu eyðublaði við vinnslu umsóknar hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sérstaklega í ljósi þess að síðustu tvo mánuðina fyrir fæðingu barnsins hafi hún verið í vinnu á Íslandi og einnig samfellt frá september 2017 til maí 2019 þegar hún hafi fengið tímabundna vinnu hjá áðurnefndri stofnun í C.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs og þau eigi við um foreldra sem séu starfsmenn eða sjálfstætt starfandi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Þá komi fram í 2. mgr. að lögin taki einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 komi fram að foreldri á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Þá sé kveðið á um það í 1. mgr. 13. gr. a laganna hvað felist í þátttöku á innlendum vinnumarkaði og í 2. mgr. hvað teljist enn fremur til þátttöku á innlendum vinnumarkaði.

Þar sem fæðingardagur barns kæranda hafi verið X 2020 teljist sex mánaða ávinnslutímabil 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 vera tímabilið X 2019 til X 2020. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæðinu hefði kærandi þurft að vera samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu, sbr. einnig 13. gr. a laganna. Samkvæmt skrám Ríkisskattstjóra hafi kærandi verið með laun frá D í X og X 2020 en launalaus tímabilið X til X 2019. Í gögnum málsins liggi fyrir staðfestingar um það, bæði frá kæranda og B, að kærandi hafi starfað á tímabilinu fyrir B í C. Þar sem kærandi hafi starfað í C tímabilið X til X 2019 uppfylli hún ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. einnig 1. mgr. 13. gr. a laganna, og þá eigi stafliðir a-e í 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 ekki við um aðstæður kæranda í þessu máli.

Frá framangreindu skilyrði um að foreldri á innlendum vinnumarkaði þurfi að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns til þess að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sé einungis að finna eitt ákvæði í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 sem mæli fyrir um skemmra tímabil en það og við hvaða aðstæður það skuli gert. Þannig komi fram í 12. mgr. 13. gr. laganna, sbr. einnig athugasemdir við 8. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 74/2008 og athugasemdir við 3. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 136/2011, að þegar foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði að minnsta kosti síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili 1. mgr. 13. gr. skuli að því marki sem nauðsynlegt sé taka tillit til starfstímabila þess sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu, enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Foreldri skuli láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá komi meðal annars fram í athugasemdum við 8. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 74/2008 að starfstímabil og þar með tryggingatímabil séu staðfest með þar til gerðum vottorðum sem tryggingastofnanir í þeim ríkjum sem flutt sé frá gefi út á grundvelli hlutaðeigandi samninga. Áunnin starfstímabil og þar með tryggingatímabil í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið séu þannig staðfest af þar til bærum tryggingastofnunum í aðildarríkjunum með S-041 vottorði, enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof.

Eins og fram komi í kæru kæranda og staðfestingu frá B verði slíkt vottorð ekki gefið út þar sem kærandi hafi starfað fyrir alþjóðastofnun. Þess í stað hafi sú stofnun staðfest starfstímabil kæranda í C og það að kærandi hafi verið með sjúkratryggingu (MCS). Þannig sé það óumdeilt að kærandi hafi starfað fyrir B og starfið farið fram í fyrrnefndu landi tímabilið X til X 2019. Þar sem starf kæranda hafi farið fram í C, sem sé ekki aðildarríki að þeim samningum sem kveðið sé á um í 12. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, geti ákvæðið þegar af þeim völdum ekki átt við um aðstæður kæranda í þessu máli.

Þá hafi það ekki þýðingu við úrlausn þessa máls eitt og sér að höfuðstöðvar B séu staðsettar á E þar sem fyrir liggi, samkvæmt kæru kæranda og staðfestingu B, að tryggingastofnun landsins geti ekki gefið út S-041 vottorð sem, eins og áður segi, sé það vottorð sem áskilið sé að skuli staðfesta hvort uppfyllt séu skilyrði 12. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um áunnin starfstímabil og þar með tryggingatímabil samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof.

Þá hafi það heldur ekki þýðingu við úrlausn þessa máls að kærandi hafi verið sjúkratryggð (MCS) þann tíma sem hún hafi starfað fyrir B í C. Kærandi hafi á sama tíma verið sjúkratryggð hjá Sjúkratryggingum Íslands frá 7. mars 2017. Þá hafi kærandi verið með lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og hafði átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma og þannig hafi hún öðlast rétt til fæðingarstyrks samkvæmt 18. gr. laga nr. 95/2000.

Með vísan til alls framangreinds telji Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 18. gr. laga nr. 95/2000, sbr. greiðsluáætlun til hennar dags. 14. febrúar 2020.  

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 kemur fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla laganna feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Þá telst enn fremur til þátttöku á innlendum vinnumarkaði þau tilvik sem talin eru upp í 2. mgr. 13. gr. a laganna.

Barn kæranda fæddist X 2020. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X 2019 og fram að fæðingu barnsins. Til þess að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði á því tímabili í skilningi 1. mgr. 13. gr. a laganna. Ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu X til X 2019 en óumdeilt er að kærandi var á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000 á öðrum tíma ávinnslutímabilsins.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að kærandi starfaði hjá B í C á tímabilinu X til X 2019. Þannig er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 12. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 er kveðið á um undanþágu frá framangreindu skilyrði um sex mánuði á innlendum vinnumarkaði. Þar kemur fram að þegar foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði að minnsta kosti síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili samkvæmt 1. mgr. skuli, að því marki sem nauðsynlegt sé, taka tillit til starfstímabila þess sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu, enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Þá skuli foreldri láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Líkt og að framan greinir og óumdeilt er í málinu starfaði kærandi fyrir B á hluta ávinnslutímabilsins, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, og fór starfið fram í C. Þar sem það ríki er ekki aðildarríki að þeim samningum sem kveðið er á um í ákvæði 12. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 kemur undanþága frá skilyrði um samfellt starf í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði ekki til skoðunar í tilviki kæranda. Þá þykir ekki hafa þýðingu í málinu að B sé með höfuðstöðvar á E, enda verður framangreind undanþága ekki túlkuð á annan hátt en þann að störf foreldris þurfi að hafa farið fram í því ríki sem aðild á að einhverjum þeirra samninga sem taldir eru upp í ákvæðinu. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. febrúar 2020, um synjun á umsókn A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum